Íslenska

Alþjóðaráðstefna um lýðræði, samfélagsáföll og pólitísk umbreytingaskeið

EDDA – öndvegissetur við Háskóla Íslands, í samstarfi við Raymond Aron Center for Sociological and Political Studies (CESPRA) við Institute of Advanced Studies in the Social Sciences í Paris (EHESS), standa að alþjóðlegri ráðstefnu sem ber heitið In/Equalities, Democracy, and the Politics of Transition. Ráðstefnan er haldin við Háskóla Íslands 10.-12. maí 2012, í Öskju stofu 132, fer fram á ensku og er öllum opin án endurgjalds. Hér má nálgast dagskrá ráðstefnunnar.

Meginviðfangsefni ráðstefnunnar er lýðræði og íslenska stjórnlagaráðið/þingið; ó/jafnrétti og velferð; og pólitískar, samfélagslegar og menningarlegar tilraunir til að glíma við afleiðingar hrunsins og kreppunnar á Íslandi og alþjóðlegu samhengi. Markmiðið er að leiða saman fræðimenn á sviðum stjórnmála, heimspeki, sagnfræði, bókmenntafræði og lögfræði til að ræða félagsleg umbreytingar- og endurreisnarskeið í þverþjóðlegu samhengi. Sjónum verður sérstaklega beint að lýðræðistilraunum, stjórnmálaþátttöku og endurreisnarorðræðum, og verða kynntar niðurstöður sameiginlegs rannsóknarverkefnis EDDU og EHESS á því sviði. Ráðstefnunni er hins vegar ekki einungis ætlað að vera alþjóðlegur fræðavettvangur heldur er hún skipulögð í því augnmiði að hvetja til samræðu milli fræðasamfélagsins og almennings um samfélagslegt og hugarfarslegt endurmat og uppbyggingu innan lands og utan.

Undirbúningsnefnd ráðstefnunnar:
Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður EDDU – öndvegisseturs;
Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands;
Jón Ólafsson, prófessor í heimspeki og vararektor Háskólans á Bifröst;
Philippe Urfalino, forstöðumaður CESPRA, prófessor við EHESS og rannsakandi við CNRS.

Að ráðstefnunni standa EDDA – öndvegissetur, Institute of Advanced Studies in the Social Sciences í Paris (EHESS), Hugvísindasvið Háskóla Íslands, Reykjavíkurborg, Háskólinn á Bifröst, og franska sendiráðið á Íslandi.